Zontasamband Íslands styrkir UNICEF vegna Úkraínu

Föstudaginn 29. apríl 2022 mættu fulltrúar frá Zontasambandi Íslands í höfuðstöðvar UNICEF á Íslandi og afhentu veglega gjöf í neyðarsöfnun UNICEF vegna Úkraínu. Upphæðin er 400.000.- Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF tók á móti okkar fulltrúum, þar sem þær afhentu gjöfina.

Zonta eru alþjóðasamtök með meðlimi um allan heim, meðal annars í Úkraínu, og helga sig vinnu við að auka skilning, velvilja og frið með alheimsaðild meðlima og stuðla að réttlæti og alþjóðlegri virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi. Sigríður Björnsdóttir, svæðisstjóri Zonta á Íslandi segir að samtökin fordæmi harðlega erlenda árás og stríðstilburði líkt og sjáist í Úkraínu nú um stundir.

Í tilkynningu frá Zontasamtökunum segir:

„Við vitum að á átaka- og stríðstímum eru konur og stúlkur, sérstaklega þær sem hafa hrakist af heimilum sínum, í aukinni hættu á að verða fyrir kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Konur bera einnig aðalbyrðina við að halda fjölskyldum sínum saman, við að tryggja öryggi og velferð barna sinna og við að takast á við tilfinningalegan og líkamlegan skaða til langs tíma sem stríðið hefur valdið.

Þar sem konur og börn fara frá Úkraínu til nágrannalanda hvetjum við alheimsmeðlimi okkar til að nota raddir sínar til að berjast fyrir þeim, til að tryggja að öryggi og velferð kvenna og stúlkna sé í fararbroddi mannúðarviðbragða.

Við vitum einnig að meðlimir okkar eru örlátir og vilja styðja beint við íbúa Úkraínu og nauðsynlegar þarfir þeirra. Þar sem alþjóðasamtök Zonta eru ekki staðsett til að veita fyrstu hjálp hafa Zontasamtökin hvatt sína meðlimi til að styrkja hjálparsamtök líkt og UNICEF sem eru þegar starfandi á svæðinu í Úkraínu og í nágrannalöndum sem taka við flóttamönnum.

Með þessum orðum viljum við afhenda UNICEF styrk frá Zontasambandi Ísland kr. 400.000.“

UNICEF á Íslandi færir öllum meðlimum Zonta á Íslandi hjartans þakkir fyrir stuðninginn sem mun koma sér vel í umfangsmiklum verkefnum UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, vegna ástandsins í og við Úkraínu.

Á myndinni má sjá fjóra fulltrúa frá Zontasambandinu ásamt Birnu Þórarinssdóttur framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi.

 

 

Aðalfundur haldinn 11. maí 2021

Þriðjudaginn 11. maí var haldinn  aðalfundur Zontaklúbbs Reykjavíkur. Var það annar fundur á starfsárinu, sá fyrri var haldinn í september.

Mæting var góð á fundinn og var boðið upp á dýrindis kjúklingasalat og tiramisu í eftirrétt.

Stjórnarskipti voru þar sem skipt var um gjaldkera og ritara.

Stjórn fyrir starfsárið 2021-2022

 

 

 

Kjólamarkaður – dagskrá

Dagskrá Kjólamarkaðar í Söngskólanum í Reykjavík, Snorrabraut 54, laugardaginn 4. nóvember:
Kl. 12.00 Markaður opnar
Kl. 14:00 og 14:30 Syngjandi sýningastúlkur við undirleik Kolbrúnar Sæmundsdóttur, píanóleikara
Kl. 16:00 Uppboð. Uppboðshaldari Hjördís Geirsdóttir, söngkona og díva
Kl. 17:00 Prúttmarkaður

Kjólar og kampavín – Söfnun til styrktar Kraftasjóði Kvennaathvarfsins

Kraftasjóður Kvennaathvarfsins er nýstofnaður og er honum ætlað að efla konur og styrkja til náms og sjálfshjálpar. Til þess að sjóðurinn megi nýtast sem fyrst blæs Zontaklúbbur Reykjavíkur til fjáröflunar og skorar á konur að sýna samtakamáttinn og leggja mikilvægu máefni lið með kjólagjöfum.

Kjólahátíðin Konur og kampavín verður haldinn á vegum Zontaklúbbsins laugardaginn fjórða nóvember næstkomandi með uppboði, markaði og syngjandi sýningardömum í Söngskólanum í Reykjavík, Snorrabraut 54.

Við skorum á konur að gefa kjóla á markaðinn og gefa gömlum kjólum líf og styrkja þannig konur til sjálfshjálpar og endurmenntunar því saman myndum við öflugan Kraftasjóð í þágu kvenna.

Við leitum að lífsreyndum kjólum, glæsikjólum sem geyma tækifæri og ævintýri, hvunndagskjólum með gleði í hverjum þræði, kjólum með fortíð sem eiga skilið framhaldslíf hjá nýjum eigendum. Dömulegar dragtir og dásamlegar múnderingar eru einnig vel þegnar.

Allur ágóði rennur til KRAFTASJÓÐS Kvennaathvarfsins.

KJÓLAMÓTTAKAN verður í Söngskólanum í Reykjavík á milli 9.00-18.00

Zontaklúbbur Reykjavíkur var stofnaður 16. nóvember 1941 og hefur því starfað í rúmlega 75 ár. Klúbburinn er hluti af Alþjóðasamtökum Zonta og fylgir markmiðum samtakanna að styrkja stöðu kvenna um heim allan.

http://reykjavikur.zonta-island.org/

Tengiliður Kjólamarkaðarins eru Sigríður Þóra Árdal, sími 660 7667, sig@koggull.com og Harpa Harðardóttir sími 698 4056, hunharpa@gmail.com

Sjá facebooksíðu https://www.facebook.com/events/1406498386130248

Fundur hjá Zontaklúbbi Reykjavíkur, 10. október 2017

Haldinn verður fundur hjá Zontaklúbbi Reykjavíkur þann 10. október og er hann haldinn í sal Söngskólans í Reykjavík.

Hér má sjá fundarboðið sem sent hefur verið til klúbbkvenna.

1) Nafnakall
2) Fundargerð ferðar og fundar í september afgreidd (fylgir með fundarboðinu).
3) Gestafyrirlesari: Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar mun fjalla um flóttamenn á Íslandi og móttöku þeirra, fyrirspurnir.
4) Umræður um styrktarverkefni klúbbsins í vetur.
5) Kynning á kjólabasar og einnig jólabasar og aðkomu klúbbkvenna að þeim.
6) Helstu Zontamál s.s.ný liðið umdæmisþing, sameiginlegur fundur klúbbanna á suðvestulandi og næstkomandi heimsþing.
7) Önnur mál s.s. nýliðun klúbbsins.

Matseðillinn er:

Dýrindis kókoskarrýsúpa með rækjum og brauði verður á boðstólnum ásamt sætindum og kaffi. Verðið er 3.000 kr. Munið að koma með reiðufé, þar sem við tökum ekki kort.

Nóvemberfundur og jólamarkaður helgina 3. og 4. desember

Nóvemberfundurinn var haldinn 8. nóvember. Hann var haldinn í heimahúsi og var slátur í boði. Þessir svokölluðu sláturfundir, eru orðnir hefð hjá klúbbnum. Það voru mættar um 26 zontakonur og gestir.

Dagskráin var þannig að fjallað var um zontamálefni og jólabasarinn, sem klúbburinn verður með helgina 3. – 4. desember. Klúbburinn hefur tekið borð á leigu á jólamarkaði Skógræktarfélags Reykjavíkur við Elliðavatn. Klúbburinn hefur verið með borð á jólamarkaðinum síðustu 3 ár og er þetta skemmtileg viðbót fyrir fjáröflun.

Konur eru duglegar að koma með efni á markaðinn, t.d. ýmislegar prjóna- og hekl vörur, sultur, paté og ýmislegt fleira jólalegt.

 

 

75 ára afmælishátíð Zontaklúbbs Reykjavíkur

Þann 11. október s.l. hélt ZR sameiginlegan fund félaga á höfuðborgarsvæðinu. Þessi fundur var einnig afmælisfundur ZR. Þann 16. nóbember n.k. verður klúbburinn 75 ár.

Fjölmenni var á fundinum, alls 86 manns.

Þórunn Lárusdóttir var veislustjóri. Hátíðarræðu hélt Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi skólastjóri og alþingiskona. Ragnheiður sló á létta strengi og var mikið hlegið.

Boðið var upp á tónlistaratriði. Söngnemarnir Hanna Ágústa Olgeirsdóttir, Jara Hilmarsdóttir og Salný Vala Óskarsdóttir sungu fyrir fundargesti og Kolbrún Sæmundsdóttir lék undir á píanó.